Færsluflokkur: Bloggar

Margt skrýtið í Ameríkunni


Nú er ég búin að vera hérna í þrjá mánuði og hef komist að því að það er margt skrýtið i Ameríkunni. Mér var sagt áður en ég fór að ég myndi nú líklega fá menningarsjokk þegar ég myndi koma hingað, en það kom nú ekki beint, en svona því lengur sem ég er hérna því fleira finnst mér skrýtið. Það fyrsta sem mér fannst skrýtið er að veruleikinn í bandarískum háskólamyndum er bara nokkuð raunhæf mynd af bandarísku háskólalífi ef maður vill taka það með trompi. Hér eru óteljandi klúbbar og félög og klappstýrur og lúðrasveitir. Svo eru auðvitað grísku stráka-og stelpufélögin. Það var nú aldeilis seremónía þegar það var verið að taka inn nýja meðlimi a.m.k. í stelpuhúsin. Það er eitt svona hús við hliðina á íbúðinni minni svo ég gat alveg fylgst vel með þessu. Svo finnst mér líka skrýtið hvað Bandaríkjamenn eru eftir á á sumum sviðum. Ávísanir eru til dæmis alveg málið hérna og netbankar eru til staðar en samt frekar óvirkir og það kostar að millifæra á milli reikninga, þá er ég ekki að tala um á milli landa.  Í dag þá kom upp annað svona skrýtið atvik og það eru þessar risaútsölur þar sem allir verða vitlausir.... þær byrjuðu klukkan FIMM Í MORGUN!!!!! og ekki nóg með það heldur bíður fólk fyrir utan í röð í skítakulda í fleiri fleiri klukkutíma til að komast á útsölurnar áður en það opnar. Ég held að maður eigi bara að vera feginn ef enginn slasast eða verður veikur í þessum hamagangi. Ég lét það nú vera að fara á þessar útsölur. En þrátt fyrir þetta líður mér bara vel hérna og hef ekkert út á fólkið sem ég umgengst að setja. Wink

Annars þá má byrja að spila jólalögin á morgun og ég á að vera að skrifa ritgerð en það gengur eiginlega bara afturábak það gengur svo hægt.

 

p.s. má skrifa skrýtið bæði með einföldu og y? Það er svona púka-stafsetningarforrit  á blogginu og það gerir enga athugasemd hvort sem ég nota í eða ý.


Chicago

Ég er á leiðinni til Chicago eftir klukkutíma með Gunnhildi að hitta AraLoL. Við ætlum að vera yfir helgina...gamangaman. Annars er langþráð vetrarfrí skollið á  en mér finnst reyndar svolítið spes að setja vikufrí tveimur vikum áður en skólinn klárast.  Ég hefði alveg verið til í frí fyrir mánuði en þetta er svosem fínt núna þegar ég á fríið eftir:) Ég fæ örugglega tilnefningu sem lélegasti bloggarinn þar sem ég hef ekki bloggað í mánuð svo kannski eru bara allir hættir að kíkja hingað inn... nema mamma og pabbiSmile. Það er bara búið að vera fullt að gera ég er t.d. búin að spila í uppfærslu á La Boheme sem var alveg frábært. Þetta er alveg yndisleg tónlist.  Í morgun fór ég í mjög fyndinn tónlistarsögutíma því kennarinn komst ekki svo hann sendi doktorsnema til að "kenna" okkur í dag og hún var svo stressuð að komast ekki yfir allt efnið að allt var gert á fullu spani og ég var alveg komin með hnút í magann af samúðarstressi.

 

Jæja... ég er farin að taka mig til....


Veðurhræðsla og kontrapunktur

Komst að því í dag að það er stelpa sem ég þekki sem er jafn veðurhrædd og ég. Það var nefnilega hvirfilvindsviðvörun (er ekki tornado annars hvirfilvindur?) í kvöld og henni var ekki rótt þegar ég hitti hana á bókasafninu og ég held bara að ég hafi verið miklu rólegri en hún og svo er hún líka hrædd við þrumuveður. Svo nú getum við aldeilis æst hvor aðra upp í hræðslunni ef við viljum;) (Held ég láti það samt vera). En það er búið að létta viðvöruninni svo ég er alveg róleg núna, en það er nú víst líka frekar sjaldgæft að þeir komi hingað af einhverjum ástæðum. En ég var samt ekkert að æsa mig upp úr öllu valdi yfir þessari viðvörun þó mér hafi ekki fundist þetta neitt skemmtilegar fréttir. ÉG held að ég sé nú að lagast með þetta :) Annars verð ég að fá að röfla aðeins yfir tónfræðiáfanganum mínum. Ég er að læra barokkkontrapunkt og fúgu og flestir tímarnir ganga út á að við reynum að leysa verkefni (búa til tónsmíð) í sameiningu sem kennarinn setur upp á töflu. En það endar yfirleitt þannig að svona 3-4 strákar í bekknum einoka alveg að koma með tillögur sem eru alveg mjög misgáfulegar. Restin situr svo á meðan kennarinn segir þeim að þetta gangi nú ekki alveg og þeir halda að þeir séu svakalega gáfaðir. Sem dæmi má nefna að einn stingur upp á að næstu nótur í sópran séu c og d en það er kannski cís í bassa svo kennarinn spyr hvort viðkomandi meinar c eða cís og nemandinn segir "já það er góð spurning" !!! Það er ekki spurning í barokkkontrapunkti hvort það er betra að hafa cís og cís eða c og cís!!!!! Svo tekur nemandinn sér tíma í að hugsa þetta mál áður en að hann kemst að niðurstöðu. Samt hika þeir ekki við að koma með fleiri jafngáfulegar tillögur helst áður en að kennarinn er búinn að tala. Já og eru svona líka svakalega ánægðir með sig. Hika ekki við að segja hvað þeim finnst um tillögur annarra ( yfirleitt hinna sem voru þá millisekúndubroti fljótar að byrja að tala). Þeir eru svo sem ekkert ókurteisir segja bara " nei þetta er bara ekki alveg að virka svona prófum þetta.... sem er alveg jafn ógáfulegt oft á tíðum. Ókei stundum dettur eitthvað gáfulegt upp úr þeim. Svo þegar einhver annar óframfærnari ætlar að segja eitthvað þá hika þeir heldur ekkert við að grípa fram í fyrir þeim. En ég hef svo sem ekkert svakalega margt til málanna að leggja alltaf í þessum tímum en þetta er samt alveg óþolandi. Jæja ég er farin að sofa, enn eitt tónlistarsöguprófið á morgun...stuð;)

ps. Til þeirra sem kannski botna ekki alveg þarna í c og cís hlutanum: Fyrirgefið en ég varð bara að koma þessu frá mér og ég lofa að skrifa ekki fleiri kvörtunarblogg;) 


Ég get opnað gluggann og það kemur ferskt loft inn

Já nú held ég að það sé að kólna (þýðir allavega ekki annað en að vona það besta) Það rigndi að minnsta kosti í kvöld og loftið úti er ekki heitt og mollulegt eins og það er búið að vera. Hitinn undanfarna daga er búinn að vera um og yfir 30 stig.... aðeins of heitt fyrir minn smekk verð ég að segja. En veðurspáin segir að það eigi að vera 27 á morgun og svo bara í kringum 20 næstu daga á eftir. Ég bara get ekki beðið, það er eins og ég sé að bíða eftir jólunum.

Annars þá skelltum við okkur að tína epli á sunnudaginn, það hef ég aldrei gert áður og það var mjög gaman. Svo var líka hægt að kaupa eplasafa og eplakleinuhringi. Sem eru mjög svipaðir og eplaskífur á bragðið.  Svo fórum við Gunnhildur á alveg frábæra tónleika með Filarmonica Della Scala sem er alveg hörkuhljómsveit. Það er líka mjög langt síðan að ég hef farið á sinfóníutónleika í góðum sal svo það skemmdi nú ekki fyrir upplifuninni.

jájá annars gengur lífið bara sinn vanagang og ekki hægt að kvarta yfir þvíSmile


Barokktónlist spiluð á synthesizer....

...er ekki falleg. Alveg sama hversu góð tónsmíðin er, hún er bara ekki að gera sig á synthesizer. Enda ekki samin fyrir synthesizer. Synthesizer spilar allt í sama rythma... það er ekkert rúbato og ekki einu sinni ritardando í endann á verkinu. Svo ekki sé minnst á fraseringaleysi. En undir þessu megum við Gunnhildur sitja  í tónlistarsögu. Við erum í barokktónlistarsögu og kennarinn okkar samdi bókina fyrir Norton útgáfufyrirtækið (sem er svo framarlega sem ég veit frekar virt útgáfufyrirtæki) en stór hluti tóndæmanna er ekki spilaður á hljóðfæri heldur á tölvu og þetta er bara alveg hræðilegt að hlusta á. Maður hefði nú haldið að svona útgáfufyrirtæki gæti greitt mönnum laun fyrir  að taka þetta upp. Þetta er útgefið á nótum í bók sem við erum með auk kennslubókarinnar sem vitnar stöðugt í þessi verk á hlustunarlistanum svo þetta er ómissandi hlutur í kennslunni, ef það á að nota þessa bók á annað borð. Ég veit reyndar ekki hvort þetta sé gefið út á geisladisk af Norton svona ( ég vona ekki) en þetta er svona á netinu þar sem við getum nálgast þetta og það eru víst ekki til neinar aðrar upptökur af þessum verkum.  Nú veit ég heldur ekki hvort þetta séu einu verkin sem eru nothæf sem dæmi um svona tónlist eða hvor það hefur bara svona svakalega lítið verið tekið upp af þessu en allt er betra en synthesizer. 

Ég er sem sagt að læra fyrir enn eitt tónlistarsöguprófið en þau eru nú þegar orðin alltof mörg fyrir eina önn. 


Til hammó með ammó!!!!

Já ég hef ákveðið að halda mig við að blogga á íslensku þrátt fyrir tilraunir skyldmenna til að blogga á öðru tungumáli þá held ég bara að mér finnist íslenskan best (kom nú reyndar ekkert annað til greina).

En þetta blogg er nú bara skrifað í einum tilgangi og það er til að óska Júlla bróður til hamingju með 17 ára afmælið í dag (28 september). Svo langar mig líka til að óska honum til hamingju með bílprófið, brilleraði alveg með enga villu á verklega prófinu.  Ég vissi nú að hann myndi massa þetta. Hann er nú ekki að stressa sig á einu prófi og tekur þetta bara á kúlinuPolice

Til hamingju með afmælið ég er ekkert smá heppin að eiga svona frábæran bróður. Wizard

Það er reyndar ekki alveg kominn 28 hjá mér en þar sem hann er kominn á Íslandi þá ætla ég bara að skrifa þetta núna.


skordýr eru ekki vinir mínir

Í tilefni af því að ég er komin á sýklalyf í þriðja skiptið síðan í maí út af skordýrabitum þá finn ég mig knúna til að segja  pöddusögu hérna á blogginu mínu.

1.Í byrjun maí þá var ég í Freiburg og þar eru ógeðlegar pöddur sem heita Zegge á þýsku (tic á ensku og festing á sænsku). Þessar pöddur geta borið með sér heilahimnubólgu og taugasjúkdóma. Ég var nú samt ekki mikið að stressa mig á þeim því þær eru eiginlega bara í skóginum sem ég sleppti bara að fara í því ég er með gróðurofnæmi og svo á maður líka að sjá þær ef þær stinga mann því þær bora hausnum inn í mann og festast þar...mjög skemmtilegt. En ég vaknaði sem sagt ein morguninn með bit á annarri ristinni og spáði svo sem ekki mikið í það nema mig klæjaði svolítið. Það var ekkert svart sem stóð upp úr bitinu og það var líka á mjög ólíklegum stað fyrir zeggebit því þær leita á heitari staði á líkamanum. En allavega... þegar ég var búin  að vera með þetta bit í rúmlega viku þá byrjaði það að stækka og á einum degi varð fóturinn allur rauður og bólginn upp að ökkla og einn svartur og annar hvítur hringur núnir að myndast  í kringum bitið svo þá leist mér nú ekki á blikuna. Hrönn fór með mér upp á spítala þar sem mér var sagt að ég væri með boreleose sem er heitið yfir það ef maður fær viðbrögð við zegge-biti. Ég fékk auðvitað áfall því þetta getur verið meiriháttar mál en læknirinn hafði nú ekki miklar áhyggjur af þessu og setti mig á sýklalyf í 10 daga. En næsta dag var fóturinn ennþá verri svo ég hringdi grátandi í Hrönn og fór í heimsókn og svo þegar Helgi kom heim þá fór hann aftur með mér á spítalann en þá var mér bara sagt að vera róleg og bólgan myndi fara minnkandi sem hún svo gerði (smá aukadrama hjá mér). Svo þurfti ég að fara í tékk 3 vikum síðar í blóðprufu 8 vikum  síðar. Svona eftir á þá var þetta ekkert mál en ekki gaman á meðan á því stóð. 

2. Í sumar fór ég í Orkester Norden til Svíþjóðar. Eitt kvöldið var svakalega gott veður svo við sátum heillengi úti og vorum að spjalla. Þegar ég kom inn þá leit ég í spegilinn og sá að ég var komin með litla kúlu á ennið og gerði ráð fyrir því að ég hefði verið bitin en hélt að það myndi bara hjaðna. Ég setti smá sterakrem á bitið til að reyna að minnka bólguna og svo tók ég líka ofnæmistöflur alltaf á hverjum degi út af gróðurofnæminu svo það hefði líka átt að hjálpa til. Daginn eftir þá fór ég bara á æfingu en kúlan bara stækkaði og stækkaði og svo fann ég aðra kúlu fyrir framan eyrað sömu megin sem ég hélt að væri annað bit en eftir því sem leið á daginn þá gerði ég mér grein fyrir að það væri nú líklega frekar eitlastækkanir því það var ekkert rautt og svo fann ég líka fleiri. Ég sá því ekkert annað í stöðunni en að kíkja á bráðavaktina (eina sem var opið á kvöldin). Þar komst ég að því að ég var komin með nokkrar kommur og ég gekk út með sýklalyf og steratöflur. Ég sagði lækninum, þegar hann sagðist ætla að láta mig fá hydrokortison (sterar), að ég væri með sterakrem en hann sagði bara "neinei það virkar ekki neitt á þetta núna þetta er orðið alltof bólgið fyrir það þú þarft að taka þetta í töfluformi". Sýklalyfin voru síðan 1g 3 sinnum á dag takk fyrir!!!

3. Þegar ég vaknaði í gærmorgun þá klæjaði mig í annan framhandlegginn og bjóst við því að nú hefði ég verið bitin. Þetta varð alltaf rauðara og bólgnara eftir því sem leið á daginn en ég gerði mér samt ekki grein fyrir því hversu bólgið þetta var fyrr en Gunnhildur kom í heimsókn til mín um kvöldið. Í morgun ákvað ég svo að láta kíkja á þetta. ÉG labbaði út úr læknamiðstöðinni með enn einn lyfseðilinn fyrir sýklalyfjum út af skordýrabiti. Núna er bitið búið að taka sér lögun Íslands  í rauðu á framhandleggnum, bara nokkuð myndarlegt sem þekur ca 1/3 ofan á framhandleggnum og bólgan er svona hálfur framhandleggurinn. Ég vona bara að þetta lagist fljótt.

 

Ég er ekki oft bitin (7,9,13) en mér tekst  oft að fá mjög dramatískar útkomur úr þeim fáu sem ég fæPinch



Jæja....

Kominn tími á blogg. Ástæða fyrir bloggleysi mínu er einfaldlega sú að ég hef ekki haft samvisku í að blogga því ég hefði átt að vera að gera eitthvað annað eins og að æfa mig eða læra í staðinn. Hér er mjög stíft prógramm alla daga svo það er vaknað klukkan átta og farið að sofa um eittleytið og aðeins tekin pása frá æfingum, lærdómi og tímasókn til þess að borða. Svo ég ákvað að í dag væri tími til að slaka aðeins á enda vikan búin að vera frekar strembin. Tvö tónlistarsögupróf( já í sama áfanganum) einn hóptími og hljómsveitartónleikar. Plús auðvitað spilatími og kammeræfingar og fleira:) En þetta er allt mjög skemmtilegt... nema kannski tónlistarsagan sem er nú einum of intensívur fyrir minn smekk en ég þrauka, 1/4 búinn. Það versta við þennan áfaga eru samt tóndæmin sem sum hver eru spiluð á synthezyser(er það skrifað svona?). Það er bara alveg kvöl og pína að hlusta á barokk-tónlist spilaða á tölvu, jafnvel fiðlumúsíkin er sum hver spiluð á tölvu. Og ég sem alveg elska að hlusta á fallega barokkmúsík... en nei þá kemur bara tölvuhljóðCrying Pinch .  Annars þá var Pacifica kvartettinn með tónleika á fimmtudaginn svo ég ákvað að líta upp úr nótna- og námsbókunum(þó ég væri að fara í tónlistarsögupróf daginn eftir). Þau spiluðu Beethoven op. 18 nr. 3  Ligeti nr. 1 og Schubert strengjakvintettinn með Paul Katz. Þau eru alveg svakalega góð. Strengjakvintettinn hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér og ég var sko alls ekki fyrir vonbrigðum á þessum tónleikum. Ég hef bara eiginlega engin orð til að lýsa upplifuninni á þessum tónleikum þetta var svo magnað fannst mér. Svo var skólahljómsveitin með tónleika í gær og það gekk bara vel. Næsta verkefni byrjar á mánudaginn.... jájá það er sko ekert verið að slaka á í þeim málum bara alltaf allir í hljómsveit. En við förum líka til Los Angeles eftir áramótWizard . Ég hef svo sem frá alveg fullt fleira að segja en ég ætla bara að geyma það þar til næst þetta er orðið alveg nógu langt í biliWink

Mér finnst rigningin góð....

Það er búið að rigna svolítið hér í Champaign-Urbana undanfarna daga. Vanalega myndi ég taka rigningunni fagnandi (ef að koma ekki miklar þrumur og eldingar) þar sem mér finnst æði að fara út í rigningu þegar það er enginn vindur, og svo þegar rigningin er búin þá verður allt svona ferskt á eftir. En hér er það sko ekki þannig, heldur verður bara ennþá mollulegra fyrir vikið. Annars var þessi vika svakalega fljót að líða...enda ekki nema fjórir kennsludagar út af Labor day. Fullt að gera í hljómsveit, spilatímum og tónfræðigreinum og ekki hægt að kvarta yfir því:) ...nema kannski of miklu álagi í tónlistarsögu;)

"Vertu grísk(ur)"

Um helgina virðist allt hafa snúist um að "vera grískur" hjá yngsta aldurshóp nemenda háskólans. Það að "vera grískur" hefur ekkert með það að gera að vera af grísku bergi brotinn heldur að ganga í félögin sem kenna sig við grísku stafina (Alfa beta gamma o.s.frv.) Þessi helgi er að mér virðist svona kynningarhelgi a.m.k. hjá stelpufélögunum, því það eru fleiri fleiri hópar sem hafa marserað um í bolum (hvítir fyrir þá sem vilja inngöngu en blair fyrir þær sem eru að halda utan um hvern hóp) þar sem stendur "Vertu grísk"" og farið í heimsókn í húsin þar sem hvert félag heldur sig. Eg veit nú ekki mikið um þetta en mér skilst að svo sæki maður um hjá einu félagi og stelpurnar ákveða svo hvort maður megi vera með. Það eru víst alls ekkert allir sem fá að vera með... enginn ungmennafélagsandi þar á bæ. Það er eitt svona hús við hliðina í mínu húsi og þar er búið að vera mikið stuð um helgina hver hópur er kvaddur með "herópi" hússins ég hef nu ekki alveg náð hvað þær segja nema það endar "ég vil ver(ð)a Alfa pí" húsið heitir Alfa pí omega. Ég hef nú lúmskt gaman af því að fylgjast með þessu þó þetta sé nú kannski svolítið mikill hávaði stundum. Aftur líður mér eins og ég sé komin í bandaríska bíómynd;)

Annars þá átti ég nú líka eftir að segja frá því að um daginn fór ég að opna bankareikning og það var enginn annar en útibússtjóri bankans sem opnaði fyrir mig reikning. Svo fékk ég tölvupóst þar sem var sagt að ég gæti leitað til hans ef ég lenti í vandræðum. Ekki amalegt að hafa útibússtjórann sem þjónustufulltúa...en soldið fyndið samtWink


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband