Færsluflokkur: Bloggar

"oooo.... you are so white....."


Jájá þetta fékk ég að heyra í dag þegar ég ákvað að fara út á hlýrabol því veðrið var svo gott. Kevina stelpa frá Taiwan sagði þetta um mig. Hún er frekar frökk svo ég svaraði með kaldhæðnistón "hah.... thank you". Þá sagði  hún að hún meinti þetta alls ekki illa heldur vel því allar asískar stúlkur vilja vera hvítar. Þær bera á sig hvítunarkrem til að verða hvítari. Þá sagði ég henni að á Íslandi væri þessu nú öfugt farið og að allir bæru á sig brúnkukrem til að verða brúnni. Jájá allir vilja vera öðruvísi en þeir eru.

Þetta styttist....

Jæja þá er bara skólinn að verða búinn. Ég er búin í öllum tímum og á morgun þá bara spila ég einn kafla úr Ravel dúóinu á kammertónleikum sem verður bara gaman:) Við Talia (sellóleikarinn) spiluðum allt verkið í gegn á tónleikum á föstudaginn. Það var svolítið stress því þetta er svaka snúið verk. En það gekk nú bara alveg ágætlega held ég svo það verður bara stuð á morgun. Svo þykist ég vera búin að skrifa eina ritgerð upp á heila 7 blaðsíður!!!! Verð að segja að ég get nú eiginlega ekki kallað þetta ritgerð þar sem það eru svo margir í kringum mig að gera Bachelor og Mastersritgerður upp á fleiri tugi síðna og jafnvel yfir hundrað síður.... en mín ritgerð er 7 blaðsíður og verður ekki staf lengri en það;) Svo er bara eitt próf á föstudaginn og flug til Boston á laugardaginn...ohh ég get ekki beðið.....

Leðurblökur og frumsýning

Það var dauð leðurblaka fyrir utan húsið mitt í morgun. Ekki mjög falleg sjón. Ég vissi ekki einu sinni að það væru leðurblökur hér. Það var líka jarðskjálfti um daginn upp á 5.2..... jájá í miðjum Bandaríkjunum ég er sko ekki að ljúga, ég bjóst ekki við því heldur... Ameríka kemur sem sagt sífellt á óvart. Annars þá var óperufrumsýning hér í kvöld. Við erum að flytja Armide eftir Lully með öllu tilheyrandi....dönsurum og upprunalegum hljóðfærum og alles. Það á nú svaka vel við mig að spila svona barokk og gaman að fá að spila á barokkfiðlu. Ég segi nú samt kannski ekki að þetta sé uppáhaldsóperan mín en hún á góða spretti inn á milli. Það er aðeins of mikið af einhverjum menúettum og gavottum fyrir minn smekk.  Fínir dansar svona inn á milli en kannski ekki sem uppistaða í heila óperu....ókei ég ýki kannski aðeins. Passacalian í síðasta þætti er flottust. Það er alveg þess virði að spila allt hitt til að fá að spila hana. Nei annars þá er þetta voða gaman bara. En það styttist í heimför. Eftir 15 daga þá fer ég til Boston þar sem ég ætla að hitta Þórunni mína og við ætlum að hafa það gott í Boston í nokkra daga og svo er það bara ÍslandGrin

Myndablogg

Hér eru myndirnar sem ég ætlaði að setja inn í gær.

Tekið fyrir utan húsið mitt (það er fyrir aftan myndavélina)

Þessi mynd er tekin beint fyrir utan húsið mitt. Ég veit ekkert hvað er í húsinu sem er hægra megin á myndinni en í hinu húsinu er kaffihús, hárgreiðslustofa (víst ekki mjög góð) og Jimmy John´s sem er svipað og Subway.

Foellinger Auditorium

Þessi mynd er tekin á "Quad" en það er svona opið svæði á miðju skólasvæðinu. Síðasta haust þá var"quad day" en þá voru öll félögin í skólanum að kynna sig. Það var allt pakkað. Húsið sem er á myndinni er Foellinger Aditorium og þar var sinfóníuhljómsveit skólans fyrst til húsa. Við spiluðum á einum tónleikum þarna og þá var okkur boðið upp á að sitja í verstu stólum sem ég hef nokkurn tíma setið í því þeir voru þannig að ef maður sat ekki alveg á brúninni þá rann maður aftur á bak og hafði ekkert jafnvægi til að spila eða ef maður sat á brúninni þá var jafnvægið í stólnum svo lítið að maður var skíthræddur um að hann myndi sporðreisast. 

Illini Union

 Þessi mynd er tekin í hina áttina á Quad og stóra húsið er Illini Union. Einhvers konar miðstöð fyrir félagsstarfið held ég. Þar er líka hótel eða gistiheimili sem er vist rándýrt að sofa á.

Krannert Center of the performing artsKrannert Center of the performing arts

 

 

 

 

 

 

 


Krannert Center of the performing artsÞetta eru svo þrjár myndir af Krannert Center of Performing Arts (sagt með mjög bandarískum hreim) Ég skil eiginlega ekki alveg arkitektúrinn á þessu húsi en þarna er stór tónleikasalur fyrir sinfóníuhljómsveit, óperusalur og leikhús. Stóri salurinn heitir Foellinger Great Hall sem er mjög ruglingslegt þegar maður kemur fyrst út af hinu Foellinger Auditorium. Annars þá er flaggað í hálfa stöng á síðustu myndinni en það er mjög algengt og enginn veit fyrir hverju er verið að flagga.

 

 

 

 Jæja það er ekki meira í bili.


Próf

Skrýtið hvernig þetta er þegar maður er að fara í próf (allavega ég) þá sveiflast ég alveg frá því að vera bara nokkuð sátt við mig, í það að finnast þetta eiginlega frekar glatað. Ég er sem sagt að fara í próf á mándaginn þar sem ég á að vera tilbúin með tvær paganini kaprísur og tólf skala og þríundir og sexundir og áttundir og fingraðar áttundir og tíundir. Í gær gekk bara vel en svo í dag þá er einhvernvegin allt miklu erfiðara....skrýtið.

Ég ætlaði að setja inn umhverfismyndir frá Champaign en það virðist vera einhver stífla á blogginu svo ég get það ekki. Ég reyni bara aftur á morgun.

 


Veður

Í dag var 12 stiga hiti hjá mér og smá rigning en bara fínasta veður. Minnti mig á pæjumótið í vestmannaeyjum af einhverjum ástæðum. Núna  (3 tímum seinna) er hins vegar 3 stiga frost og frostrigning og vindur. Ég held að þetta sé nú bara ýktari veðurbreytingar en heima. Annars þá er ég að spila á barokkfiðlu í uppsetningu á vegum skólans á barokkóperunni Armide eftir Lully. Við erum búin að hittast tvisvar og spila kaflana þar sem er enginn söngur heldur bara dans. Ég held að þetta verði mjög skemmtilegt:)

Smá pælingar.....

Hvernig er hægt að spara með því að taka lækninn af neyðarbílnum og samt bæta þjónustuna? Verður ekki þjónustan bætt með því að setja lækninn inn á bráðamóttökuna og vinnur hann ekki bara þar í staðinn? Hvar er þá sparnaðurinn? Eða verður læknirinn ekki settur inn á vaktir á spítalanum og hvar er þá bætt þjónusta?

Ég verð að viðurkenna að þótt mér hafi fundist þessi meirihlutaskipti í borginni mjög vafasöm og flott að mótmæla því þá fannst mér mótmælin algjörlega fara úr böndunum og missa marks. En ég verð samt að segja að ungliðahreyfing sjálfstæðisflokksins er bara alls ekki skárrri þegar þau (reyndar í öllum tilfellum sem ég hef séð "þeir") hertaka álagningarskrárnar í byrjun ágúst svo enginn kemst að þeim þó fólk eigi rétt á því samkvæmt lögum. Mér finnst það ekkert minni skrílslæti en þau sem viðhöfðust í Ráðhúsinu á fimmtudaginn. 

Ég tek það fram að ég var að vinna á skattinum en ekki að bíða eftir að komast í skrárnar en ef fólk vill skoða skrárnar þá finnst mér það bara fínt því ég er á móti launaleynd.

.......Bara að pæla..... 

 


Myndir

Í tilefni af nýju ári og nýrri myndavél sem ég fékk í afmælisgjöf.... fyrsta digital myndavélin mín:) þá ákvað ég að setja inn nokkrar myndir valdar af handahófi frá haustönninnni hérna í Champaign. Sumar myndir eru samt frá Gunnhildi... er það í lagi Gunnhildur???? Ef þið klikkið á myndirnar þá fáið þið nákvæmari texta um hverja mynd.

 


Blogg á nýju ári

Jæja þá er fyrsta vikan í skólanum búin og allt er komið á fulla ferð. Það eru hljómsveitartónleikar í strax næsta föstudag þar sem við höldum minningartónleika um tenórinn Jerry Hadley. Það er reyndar alveg hundleiðinlegt að æfa fyrir þessa tónleika ef ég á að vera alveg hreinskilin. Það gengur alveg svakalega hægt af einhverjum ástæðum og svo er þetta líka svolítið samhengislaust að vera að spila svona eina og eina aríu úr fullt af verkum og söngvararnir eru ekki komnir því það eru atvinnumenn. Vinir Hadley.

Annars þá fórum við Gunnhildur á tónleika á miðvikudaginn þar sem Pinchas Zuckermann spilaði Bruch-fiðlukonsertinn með Royal Philharmonic og svo var líka spilað Elgar serenaða og Tchaikovsky nr. 4. Ég var reyndar ekkert sérstaklega hrifin af Tchaikovsky sérstaklega ekki fyrsta kaflanum en hitt var mjög flott. Svo skelltum við okkur á ballettsýningu með St. Petersburg ballettinum í gær og ég verð að játa að það er í fyrsta skipti sem ég fer á ballettsýningu. Þau voru með uppfærslu á Carmen og ég skemmti mér mjög vel. Ég hef alveg svakalega lítið vit á þessu en mér fannst dansararnir mjög flottir en mér fannst þau reyndar ekki alveg nógu trú sögunni sem var í prógramminu. Það dóu miklu fleiri en í prógramminu.

 Núna er 15 stiga frost og það á víst að vera eins og að fara út í 25 stiga frost út af vindinum. Mér finnst ekkert sérstaklega spennandi að fara út ef ég á að vera alveg hreinskilin en ég held ég láti mig nú samt hafa þð ég á svo fínan vetrarfatnað;)


Til hamingju með afmælið elsku mamma mín

Mamma mín á afmæli í dag. Til hamingju með afmælið elsku besta mamma mín og njóttu dagsins í dag:)

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband