komin á nýjan stað

Jæja í tilefni af flutningum hérna í Bandaríkjunum ákvað ég að blása lífi í þesa bloggsíðu. Nú er ég byrjuð í diplómanámi í University of Hartford. Skólinn byrjaði á þriðjudaginn svo ég er næstum búin með eina viku í skólanum. Það fyndna er samt að það er opinber frídagur núna á mánudaginn svo ég byrja ekki í einum áfanganum fyrr en 14 sept. Hann er sem sagt bara kenndur á mánudögum. En ég er byrjuð í hljómsveit, kammermúsik, barokksamspili og hljómsveitarpartaáfanga. Ég slepp held ég alveg við að skrifa ritgerðir þessa önnina sem er mikill plús ;) Annars er bara nóg að æfa og gaman að vera komin aftur í rútínu :)

 Bærinn sem ég bý í heitir West Hartford og er eins og úthverfi af Hartford. Það eru mörg alveg svakalega sæt hús hérna og greinilegt að hér býr ríkt fólk á sumum stöðum miðað við stærðir á húsunum og görðunum í kringum þau. Ég bý í mjög kósí gulu húsi :) Ég kannski skelli inn myndum af nánasta umhverfi á næstu dögum.


Til hamingju með afmælið elsku Pabbi

Hann pabbi minn er 51 árs í dag (14. mars).

Til hamingju með afmælið elsku pabbi minn ég veit að þú áttir góðan afmælisdag:) Þú og mamma eruð hetjurnar og fyrirmyndirnar  í lífi mínu og ég er alveg óendanlega þakklát að eiga ykkur að.

 


Hartford

jæja þá er fyrsta inntökuprófið búið og það gekk bara ágætlega. Ég var tilnefnd í svona úrtak fyrir kammermúsíkprógram í skólanum sem heitir 20/20 svo ég spilaði aftur aðeins seinna fyrir nefnd sem velur í að prógram. Það voru þrír fiðluleikarar í dag sem komust í þetta úrtak svo ég var mjög sátt við það:) Þetta prógram hljómar mjög spennandi  það eru ca. tveir strengjakvartettar í þessu og tveir blásarakvintettar og svo fleiri hljóðfæri eins og harpa og gítarar og saxafónar og kontrabassar og píanó. Það eru 15 tónleikar á ári en það spila ekki allir alltaf og það eru bæði spiluð verk sem eru svona standard eins og Schubert sellókvintettinn og líka ný tónlist og allt þar á milli. Þó það séu tveir strengjakvartettar þá spilar maður í verkum með alls konar hljóðfæraskipan en ekki endilega alltaf i kvartett. Nú er bara að krossa fingur og vona það besta ;) 


Langt ferðalag

Jæja þá er ég komin aftur til Champaign. Ferðalagið var samt lengra en ég hafði gert ráð fyrir. Ég lagði af stað upp úr tvö út á Keflavíkurflugvöll á þriðjudaginn. Flugið var nokkurn veginn á áætlun en hins vegar var svo mikill mótvindur að við vorum næstum 6 tíma á leiðinni. Ég kom mér til Vince og Joönnu með tösku með bilað hjól og fiðluna og tölvutöskuna. Þau tóku auðvitað alveg svaka vel á móti mér en ég var reyndar frekar lúin út af tímamismuninum svo ég var sofnuð fyrir tíu. Svo á miðvikudaginn þá ætlaði ég að fara út á flugvöll og vera komin þangað um hálf-ellefu til að ná flugi klukkan hálf eitt en fyrir rælni þá athugaði Vince statusinn á fluginu og við sáum að því hafði verið aflýst. Ég hringdi í flugfélagið og þeir sögðu mer að ég væri bókuð í flug klukkan 14:15. Svo ég lagði af stað út á flugvöll um ellefuleytið og var komin þangað um tólf en komst þá að því að fluginu hafði verið seinkað um klukkutíma út af vondu veðri í Chicago. Svo ég beið bara róleg þangað til að ég tók eftir því á skjánum við flughliðið að fluginu hafði seinkað um annan klukkutíma. Það þýddi að ég það var mjög tæpt að ég myndi ná lestinni sem ég ætlaði að taka og var síðasta lestin til Champaign þann dag. Það var reyndar ein rúta svo ég druslaðist með allt draslið mitt út á rútustöð á flugvellinum til að komast að því að þeir seldu ekki miða í þessa rútu maður yrði að kaupa miða á netinu og prenta hann út eða fara á sérstaka sölustaði. Þarna var alveg útséð um að ég myndi komast til Champaign þetta kvöld svo ég fór bara á hótel. Einu lestarnar næsta dag voru klukkan 8:15 og svo ekki fyrr en fjögur svo ég hékk í Chicago frá því að ég tékkaði mig út af hótelinu og þangað til klukkan fjögur en þar sem ég var með allt draslið mitt og það var í kringum 30 stiga frost þá þorði ég ekki að vera úti með fiðluna mína svo ég beið á lestarstöðinni í fjóra tíma og tók fjögur-lestina og var komin hingað ca. þremur tímum seinna. Svolítið búin á því líkamlega. Þó að ég hafi gist á fínum stöðum báðar næturnar sem ég var á þessu ferðalagi þá er það samt eitthvað lýjandi að vera alltaf að búa sig undi að ferðast. Ég var samt alveg róleg og var ekkert að stressa mig á þessu og þetta hefði ekki verið neitt mál ef ég hefði ekki verið með svona mikinn farangur. En hér er ég nú og veðrið er að skána það er í kringum frostmark núna sem er miklu betra en það var:)

Til hamingju með afmælið elsku mamma

Hún mamma mín á afmæli í dag (8. des) Það er ennþá áttundi des. hjá mér og ég var bara að koma heim úr skólanum og gat ekki skrifað þessa færslu fyrr. Stundum hugsa ég hvað ég er ótrúlega heppin að eiga svona frábæra foreldra. Þau eru algjör gull. Þau eru alltaf til í að hlusta á mig og bera virðingu fyrir mér og mínum skoðunum. Eru alltaf til staðar til að aðstoða mig í öllu sem ég þarf. Alltaf jákvæð og sjá aldrei vandamál bara lausnir á öllu. Svo eru þau líka bara svo frábærar manneskjur og miklir vinir barnanna sinna. Já ég hef sko margt að þakka fyrir og gleðjast yfir. Til hamingju með afmælið elsku mamma megi framtíðin verða blómum stráð.

Aðventan og fyrsti snjórinn

Það er alveg svaka fallegt hérna núna. Snjór yfir öllu og voða kósí. Það snjóaði í gær á fyrsta í aðventu og svo hefur líka snjóað meira og minna í allan dag en samt ekki þung snjókoma en það er allt hvítt. Uppáhaldsveðrið mitt :) Það er mikið að gera þessa dagana og stutt í smá panik en svo bara kemur þetta allt saman. Fyrsta umsóknin fór í póst í dag og ég er búin að sækja um hér líka svo þetta er bara allt á góðri leið held ég.  Hinar umsóknirnar eru eiginlega tilbúnar og ein af þeim fer líklega í póst á fimmtudaginn. Annars hef ég nú eiginlega ekkert að segja. Það eru bara næg verkefni fram að heimför. Annars keypti ég þennan kjól í afmælisgjöf frá mömmu og pabba og ætla að vera í honum á kammertónleikum á miðvikudaginn og mínum útskriftartónleikum í vor. Þar sem kammertónleikarnir eru hluti af því sem 1. fiðluleikarinn í kvartettinum mínum þarf að gera fyrir doktorsgráðuna sína þá eru þetta svona svolítið eins og útskriftartónleikar með bara kammermúsík og af því að hún ætlar að vera svona fín þá er það fín afsökun fyrir mig og víóluleikarann að vera líka í fínum kjólum, við verðum að vera í stíl  :)s06_f1286_blackwhite_741559.jpg

Styttist í heimför :D

Langt síðan síðast..... og ég orðin árinu eldri bara. Bauð nokkrum í pitsu í tilefni dagsins bakaði 7 pitsur og súkkulaðiköku. Það hefði nú líklegra verið eitthvað meira grand í Foldasmáranum en þetta verður að duga þegar ég er ein í eldhúsinu ;) Annars er nú bara lokaspretturinn á önninni. Ég er í fríi í þessari viku út af þakkargjörðarhátíðinni sem er á morgun og ég nýti fríið í að æfa mig, skrifa ritgerð, gera verkefni og klára umsóknir. Það er skrýtið með svona umsóknir ég er alltaf viss um að ég sé að gera eitthvað vitlaust eða að gleyma einhverju eða eitthvað. Það hleypur í mig svaka verkkvíði yfir því að það vanti örugglega mikilvægar upplýsingar;) Umsóknirnar fara í póst á mánudaginn og þá er það búið. Annars eru bara átta skóladagar eftir af önninni. Það er nú ekki mikið. Síðust 3 dagana fer ég samt í tvö hlustunarpróf, eitt greiningarpróf, fiðlupróf og spila á hljómsveitartónleikum. Svo er bara einn dagur og svo er ég farin til Boston. Áætluð heimkoma til Íslands er 14. des :D

Það kólnar

Fyrsta frostið kom í nótt. Alveg bara frostviðvörun og læti ;) Annars er svo sem bara allt eins. Fiðlutímarnir ganga bara ágætlega og ég er í mjög skemmtilegum kammerhóp. Við náum mjög vel saman. Svo eru búin að vera próf í bóklegu fögunum og síðasta prófið er á morgun. Það er hlustunarpróf í strengjakvartettum frá 20. öld. Margir eru mjög flottir. Eftir það förum við að læra um strengjasveitaverk alveg frá barokkinu og þar til á 20 öld. Það verður örugglega gaman:) Svo er það auðvitað hljómsveitin, við æfum Vivaldi og Mozart sinfóníu núna. Ég gleymdi líka að segja að strákurinn sem var með uppsteyt við mig á raddæfingunni um daginn er púltfélaginn minn núna..... gaman að því ;) Hann á svolítið erfitt með að gera eins og ég, spilar lengri strok en ég, er á öðrum stað í boganum og spilar jafnvel öfug strok. Hingað til hef ég svolítið pirrað mig á þessu en ekki sagt neitt í von um að hann myndi kannski lagast svona þegar hann væri farinn að venjast sinfóníunni eða eitthvað en nú eer ég hætt að pirrast og ætla bara að segja eitthvað við hann. Ég ætla samt ekkert að vera neitt leiðinleg bara mjög kurteis ;) 

Nú er ég á leiðinni til sýkingarfræðings út af tánni til að komast að því hvort ég sé með beinsýkingu eða ekki...... gaman að því


Viðburðaríkir dagar

Síðustu vikur hafa verið frekar viðburðaríkar hér í Champaign-Urbana. Að minnsta kosti í mínu tilfelli. Geirþrúður kom í heimsókn til mín í síðustu viku og var hjá mér í 4 daga. Það var sko alveg frábært að fá hana í heimsókn. Hljómsveitartónleikar númer tvö voru svo á föstudaginn fyrir viku og gengu þeir bara alveg ágætlega. Ég var samt alveg búin eftir Hindemith sem var síðast fyrir hlé og þá var allur Tchaikovsky píanókonsert númer 1 eftir eftir hlé. Það var samt mjög gott að vera búin með Hindemith fyrir hlé. Verkið er mjög flott en mér fannst það alveg svakalega erfitt. Ekki verra samt að vera búinn að spila það einu sinni þá hlýtur það að vera léttara ef ég fæ að spila það aftur seinna:).

Nú er búið að skipta okkur upp í kammerhljómsveit og óperuhljómsveit. Ég er í kammerhljómsveitinni og fæ áfram að vera konsertmeistari en kammerhljómsveitin spilar á tveimur tónleikum þessa önnina. Einir tónleikar eru bara með okkur en hinir eru líka með hinni skóla-sinfóníuhljómsveitinni. Á þeim tónleikum spila ég bara í einu verki því kammersveitinni er þar skipt í tvennt og í hinu verkinu eru bara 3 strengjaleikarar og svo blásarar og slagverk píanó og harpa. Ég fæ hins vegar að spila 1. fiðlu sóló í Vivaldi konsert fyrir 4 fiðlur:) Við erum byrjuð að æfa og það er mjög gaman það þarf samt svolítið mikla fínpússningu á þetta fyrir tónleikana en við erum með stjórnendanema sem stjórnanda og hann er fiðluleikari og veit sko alveg fullt um barokk og hefur spilað fullt á upprunaleg hljóðfæri og þekkir fullt af góðum spilurum sem hann hefur unnið með eða spilað fyrir. Við spilum nú samt bara á okkar venjulegu hljóðfæri;)

 


Hitt og þetta....

Hér gengur lífið bara sinn vanagang. Það snöggkólnaði samt í dag miðað við undanfarna daga. Nóg að gera bara sem er frábært. Bakaði samt súkkulaðiköku á laugardaginn hún var mjög góð :)

Hljómsveitin æfir Hindemith á fullu. Það er nú svolítið snúið verk þar sem ég held að yfir 90% af nótunum hafa laus formerki fyrir framan sem gerir alla inntónasjón enn erfiðari og ekki bætir úr skák að hafa 1. fiðlupartinn í hæstu hæðum og allt í svaka tempói. Jæja við sjáum hvernig það fer ;) Annars hélt ég raddæfingu í gær þar sem inntónasjón varð einmitt aðalmálið en það varð bara að vera þannig.

Einn ákvað að láta mig vita á miðri æfingu að bogastrokin væru ómöguleg og virkuðu bara alls ekki og að allir myndu bara spila alltof sterkt þarna ef við gerðum þetta eins og ég vildi og meira að segja myndu líka allir bæta við áherslum í þokkabót. Við vorum ekki búin að spila þetta í gegn áður svo hann var bara að segja hvernig það myndi hljóma ekki hvernig það hefði hljómað. Ég var nú ekki alveg viðbúin þessu og vissi ekki alveg hvað ég átti að segja en stóð samt við bogastrokin og aðrir í "röddinni" komu mér líka til hjálpar og sögðu að þetta virkaði alveg hann yrði bara að spila veikt og þá væri það fínt. Það er nefnilega aðeins erfiðara að svara fyrir sig á ensku en íslensku ég hefði farið létt með þetta á íslensku;) 

Annars smá "update" á tánni. Mín var send í röntgen þar sem komið hefur í ljós að það er eitthvað inni í tánni sem á ekki að vera þar og nú er bara minniháttar "aðgerð" dagsett 16. okt. takk fyrir. Verð að segja að mig langaði pínu að senda fótalækninum sem ég hitti á Íslandi tölvupóst og segja við hann "ég sagði þér það" því hann sagði að þetta myndi örugglega bara hverfa af sjálfu sér  ....neinei ég segi bara svona;) En ég er bara fegin að geta bráðum átt eðlilega tá ;)

 Svo kemur Geirþrúður bráðum í heimsókn :D


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband